Betri byggð

9.5.05

Fregnir af aðalfundi Landverndar

Samtök um betri byggð gengu formlega í Landvernd á aðalfundi sem haldinn
var laugardaginn 23. apríl 2005 á Hótel Hellissandur, Snæfellsnesi.
Fulltrúi samtakanna var Dóra Pálsdóttir. Hún kynnti helstu stefnumál
samtakanna og bar fram ályktun okkar. Ályktuninni var vísað til nýkjörinnar
stjórnar Landverndar til frekari umfjöllunar.

Samtök um betri byggð eiga mikla samleið með Landvernd þar sem við berjumst
fyrir góðri nýtingu á verðmætu landi, minni mengun og betra mannlífi.

Tillaga Samtaka um betri byggð um nýjan kafla í stefnu Landverndar varðandi höfuðborgarsvæðið.

Landvernd skorar á borgarstjórn Reykjavíkur og aðrar sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu að láta gera nýtt aðalskipulag fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2006, sem innihaldi róttæka þéttingu byggðar á 20 ára skipulagstímabili. Varðandi Reykjavík blasir það við sem lang besti valkostur að fjarlægja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni svo fljótt sem það er tæknilega gerlegt og byggja þar í staðinn þétta og blandaða byggð. Á sama tíma haldi borgaryfirvöld að sér höndum varðandi frekari útþenslu Reykjavíkur austur fyrir Elliðaár.

Greinargerð

Þétting byggðar er yfirlýst meginmarkmið núgildandi aðalskipulags Reykjavíkur. Því miður er það markmið ekki í samræmi við sjálft inntak og forsendur skipulagsins, sem að óbreyttu mun þvert á móti leiða til þess að íbúum á hvern hektara lands á höfuðborgarsvæðinu fækkar úr 16 árið 2001 í 14 árið 2024. Þetta veldur því að eknum kílómetrum fjölgar um 15% á hvern íbúa á skipulagstímabilinu, eins og segir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.

Þétting byggðar í eða við miðborgir er mjög umhverfisvæn aðgerð, sem dregur úr þörf fyrir akstur einkabíla. Orkunotkun og mengun minnka, slysum fækkar í umferðinni, miklir fjármunir sparast og dregið er úr heilsuspillandi neysluvenjum bílasamfélagsins. Grundvöllur skapast á ný fyrir góða þjónustu almenningsvagna og fleiri eiga þess kost að sinna erindum gangandi eða á reiðhjóli. Þannig er stuðlað að aukinni hreyfingu og heilbrigðari og menningarlegri lífsháttum borgarbúa.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home