Betri byggð

23.2.05

Borgarmál í Laufskála

Stefán Ólafsson forstöðumaður Borgarfræðaseturs var í Laufskálanum á Rás 1 fimmtudaginn 10. febrúar. Hlusta má á þáttinn hér.

18.2.05

Nýrri flugstöð ætlað að festa flugvöllinn

Enn er skrifað á Deigluna um mikilvægi þess að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni, lesið grein Brynjólfs Stefánssonar.
Steinunn Jóhannesdóttir á svo grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hún svarar grein Ingu Rósu Þórðardóttur frá því á dögunum.

15.2.05

Yfirlýsing um nýja flugstöð í Vatnsmýri

Samtök um betri byggð mótmæla byggingu nýrrar flugstöðvar sem kölluð hefur verið samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni. Samtökin mótmæla þeirri stórkostlegu sóun á almannafé og skerðingu á framtíðarmöguleikum svæðisins sem felst í ákvörðuninni.

Samtökin telja staðsetninguna óheppilega eigi rútur að fara þar um. Engin byggð er í nágreninu, engar tengingar við almenningssamgöngur eða ákvörðunarstaði ferðamanna. Benda mætti á Hlemm, Mjóddina og athafnasvæði Strætó við Borgartún sem mun fýsilegri kosti svo dæmi séu nefnd. Uppbyggingu samgöngumannvirkja á að miða við þarfir almennings en ekki þess fámenna hóps ríkisstarfsmanna sem notar flugvöllin mest að jafnaði.

Skipulagning nýrrar flugstöðvar í Vatnsmýri festir flugvöllinn í sessi og tryggir það að áætlanir borgaryfirvalda um byggð í Vatnsmýrinni verða að engu. Borgaryfirvöld geta ekki haldið áfram að skipuleggja borgina í smábútum án heildaryfirsýnar eins og dæmið um hina nýju flugstöð sýnir. Skortur á heildaryfirsýn má hugsanlega rekja til þess að samgönguráðuneytið virðist hafa meira um skipulag borgarinnar að segja en borgaryfirvöld sjálf eins og mál flugvallarins og annarra samgöngumannvirkja sanna.

Yfirvöld bera ekki bara ábyrgð gagnvart kjósendum dagsins í dag heldur einnig gagnvart framtíðarkynslóðum sem eiga að fá tækifæri til að móta byggðina á hagkvæman hátt. Að festa flugvöllinn enn um sinn skerðir þá möguleika.

Í Reykjavík hefur verið kosið um framtíð flugvallar í Vatnsmýri og borgarbúar eiga heimtingu á að óskir þeirra verði virtar. Sjálf eiga borgaryfirvöld að virða eigin framtíðarsýn eins og hún er sett fram í aðalskipulagi. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi eru 11 ár þangað til hluta flugvallarins skal leggja niður og 19 ár þangað til hann skal víkja að fullu. Að byggja heilt nýtt mannvirki undir starfsemi í svo stuttan tíma er óskynsamlegt og væri nær að endurnýja og bæta þá flugstöð sem fyrir er eigi að bæta aðstöðuna tímabundið.

Samtök um betri byggð hvetja því borgarstjórn Reykjavíkur til að taka málin í sínar hendur og skipuleggja Reykjavík með þarfir Reykvíkinga í huga og í samræmi við óskir þeirra. Fastsetjið ekki flugvöll í Vatnsmýri um ókomin ár með svo kallaðri samgöngumiðstöð heldur kannið til hlítar þann ávinning sem felst í heildaruppbyggingu Vatnsmýrar fyrir hinn almenna borgara, Reykvíkinga sem og utanbæjarfólk.

14.2.05

Reykjavíkurflugvöllur og rætur offitunnar

Það var með seinni heimsstyrjöldinni sem sú þróun hófst í skipulagsmálum höfuðborgarinnar sem við súpum seyðið af í dag. Samhliða hernámi landsins var Vatnsmýrin og nágrenni hennar tekin með valdi og lögð undir flugvöll gegn mótmælum borgarstjóra og nokkurra fjölskyldna sem voru fluttar nauðugar brott. Um 180 hektara svæði í hjarta borgarlandsins var gert óbyggilegt og girt fyrir þann möguleika að Reykjavík gæti haldið áfram að byggjast með náttúrulegum hætti milli stranda. Þetta er 60 ára sorgarsaga og líklega einn mesti stríðsskaði sem Ísland varð fyrir. Stríðið stöðvaði þróun Reykjavíkur í átt til evrópskrar borgar með þéttri byggð og götulífi sem hafin var á fyrri hluta 20. aldar. Eftir stríð var stefnan sett á bílaborg að bandarískri fyrirmynd. Þar með var búið í haginn fyrir offituna sem við neyðust nú til að horfast í augu við sem eitt stærsta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar á sama hátt og Bandaríkjamenn. Um 60 % bandarísku þjóðarinnar mun þjást vegna offitu og afleiddra sjúkdóma.

Ofát og hreyfingarleysi


Það er ljóst að Bandaríkjamönnum sjálfum er farin að ógna sú framtíðarsýn að þeir muni kafna í eigin spiki. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á lifnaðarháttum þjóðarinnar og niðurstöðurnar eru þær að tvennt valdi offitu, annars vegar ofát og hins vegar hreyfingarleysi. Ábyrgð á ofátinu er m.a talin liggja hjá skyndibitaframleiðendum á borð við McDonalds og Kentucky Fried Chicken.[Í heimildamyndinni “Supersize me” sást hvernig unnið var markvisst að því í félagi við Pepsi og Coke að gera fólk að matarfíklum með ofurgróða og heimsyfirráð á sínu sviði fyrir augum]. Ábyrgð á hreyfingarleysinu bera síðan skipuleggjendur bílaborga í félagi við bílaiðnaðinn. Það eru sem sagt hvorki drepsóttir né styrjaldir sem ógna lífi Bandaríkjamanna heldur þeirra eigin best lukkuðu framleiðsluvörur á frjálsum markaði. Fyrir þessum dásemdum liggur mannskepnan kylliflöt. Og þeim fjölgar sem sagt ört sem verða afvelta.

Skipulag og offita


Sú þekking sem orðin er til á rótum offituvandans leiðir í ljós að fólk sem býr í borgum þar sem það getur komist leiðar sinnar gangandi og með almenningsfarartækjum er heilsuhraustara en það sem býr í bílaborgum, eða úthverfum þar sem gangan hefur verið skipulögð burt úr daglegu lífi. Það stuðlar að offitu að skipuleggja hverfi þannig að börnum þurfi að aka til og frá skóla, að sækja þurfi varning til heimilshaldsins um langan veg sem og flesta þjónustu, félagslíf og skemmtanir. Og í sjálfu upprunalandi bílsins og bílaborgarinnar eru hafnar tilraunir til þess að hverfa aftur til frumgerðar borgarsamfélagsins með róttækri þéttingu byggðarinnar og samtvinnun atvinnu-, verslunar- afþreyingar- og heimaumhverfis í stað þeirrar aðgreiningar sem ráðið hefur ríkjum frá stríðslokum.

Þétt byggð - betri lífshættir

Þétting byggðar er á stefnuskrá núverandi borgarstjórnar Reykjavíkur sem hefur gert sér grein fyrir þeim ógöngum sem bílaborgin hefur leitt okkur í. Almenningssamgöngur hafa nánast liðið undir lok og offituvandinn er ógnvekjandi. Við þessu ætlar borgin að bregðast. En viðsnúningurinn er afar hægur í reynd. Það mun heldur ekki takast að framfylgja þessari stefnu nema unnt verði að endurheimta þá 180 ha lands sem teknir voru herskildi undir flugvöll í Vatnsmýrinni í stríðinu. Þar eru nokkur ljón á veginum. Þau sem urra hæst eru stórnotendur innanlandsflugsins, fáeinir alþingismenn stórra landsbyggðarkjördæma, sveitarstjórnarmenn, framámenn fyrirtækja og fleiri sem þurfa oft að skjótast á fund og njóta þeirra forréttinda að fá farseðilinn greiddan úr annarra vasa. Almenningur sem sjálfur greiðir far sitt notar flugið sjaldan. Innanlandsflugið er ekki almenningsflug í þeim skilningi að það sé mikið notað af almenningi eins og lestir í útlöndum. Það er því gróf fölsun að líkja Reykjavíkurflugvelli við aðaljárnbrautarstöðvar í erlendum stórborgum. Reykjavíkurflugvöllur tekur upp gríðarlegt landflæmi sem klippir sundur austur og vesturborgina, Hovedbanegården í Kaupmannahöfn rúmast á um einum hektara og hverfur að flestu leyti inn í borgarmyndina.

Fyrir fáum árum greiddu Reykvíkingar atkvæði um framtíðarnýtingu flugvallarsvæðisins. Meirihluti fékkst fyrir því að þar yrði þróuð miðborgarbyggð. Stjórnmálamönnum ber að virða þá niðurstöðu. Að auki ber þeim skylda til að afla sér þekkingar á samhengi borgarskipulags og heilsufars. Það er sameiginlegt verkefni stjórnmálamanna, heilbrigðisstétta, matvælaframleiðenda og skipuleggjenda bæja og borga að vinna gegn þeirri vá sem offitan er. Reykjavíkurflugvöllur kemur þar mjög við sögu. Aðrir staðir í nágrenni höfuðborgarinnar geta tekið við því mikilvægasta af hlutverki hans.

Steinunn Jóhannesdóttir

rithöfundur
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2005

10.2.05

Er flugvél lest?Mynd frá Sverrirbo.

Afkáraleg hugmynd að líkja Vatnsmýrarflugvelli við lestarstöð hefur skotið upp kollinum. Gerð er tilraun til að rómantísera flugvöllinn með þessari líkingu og hefur Magnús Skúlason gengið fyrir skjöldu með þessa hugmynd og því miður tekist að safna að baki sér fólki sem hefur stokkið á hugmyndina. Einna verst er þó að borgarstjórinn í Reykjavík hefur mært hugmyndina og Ómar Ragnarsson fór fögrum orðum um hana í einni af sínum óskiljanlegur fréttum. En hugmyndin er vanhugsuð og ekki í samræmi við veruleikann. Skoðum af hverju.

Fyrir það fyrsta þá er Vatnsmýrarflugvöllur ekki miðstöð nærsamgangna eins og Hovedbanegården Kaupmannahafnar eða T-Centralen í Stokkhólmi. Eingöngu ein tegund samgönguforms fer um völlinn en á lestarstöðvunum sem reynt er að líkja honum við er hins vegar mikilvæg miðstöð lesta sem fara til annarra landa, innanlands, innan borgarsvæðis og innan borgarinnar. Þetta hefur svo áhrif á næsta atriði.

Fjöldi ferða um völlinn eru sárafáar m.t.t. heildarfjölda ferða á höfuðborgarsvæðinu. Meðan að nefndar lestarstöðvar eru viðkomustaður stórs hluta borgarbúa þá eru það sárafáar hræður sem fara um Reykjavíkurflugvöll.

Víðast þar sem lestarstöðvar eru í miðborgum og lóðaverð hátt er unnið að því að koma teinum og stöð undir jörð svo hægt sé að nýta jarðnæðið. Nefni ég Penn og Central station á Manhattan sem dæmi og ekki síst fyrirhugaða færslu á teinum við T-Centralen í miðbæ Stokkhólms. Sá flugvöllur sem undirritaður samþykkir fyrir sitt leyti er sá sem er neðanjarðar.

Magnús tekur fyrir ýmis atriði sem þyrftu með ef flugvöllurinn ætti að dafna en það eru því miður allt atriði sem standa utan við valdsvið hans og yfirvalda. Hann nefnir t.d. verð á flugmiðum og leigubílum sem honum þykir of há en eru í raun markaðsverð og því fullkomlega rétt verð hvað sem það kann að vera. Þá gerir hann sér grillur um að Reykvíkingar muni stíga á bak hjólehestum í fjöldavís svo fljótt sem búið er að minnka flugvöllinn og byggja kringum hann. Allir sjá hvers kyns óraunsæishjal er um að ræða því ekkert stendur í vegi fyrir að málum sé svona fyrir komið þegar í dag hefði einhver áhuga á því.

Enn annað bullið sem Magnús tínir til er um áhrif bílaflotans á vegakerfið og tengir það stöðu flugvallarins. Ef ástandið er slæmt núna hvernig verður það þá betra með því að hafa völlinn umkringdan byggð? Væri ekki nær að reyna að minnka innanbæjarumferð einkabíla með þéttri borgarbyggð? Farþegar flugsins eru svo fáir að áhrif á vegakerfið væru sáralítil þótt hluti flugfarþega sæi fremur hag í að aka en að fljúga til Keflavíkur. Svo nefnir hann sérstaklega vöruflutningabíla sem koma þessu máli ekkert við því vöruflutningar í innanlandsflugi eru með minnsta móti.

Það sem er þó verst við hugmyndina um klofna byggð í Vatnsmýri er að ekkert þeirra umhverfis- og öryggisvandamála sem leysa á með brottflutningi flugvallarins eru leyst. Hávaðinn er sá sami og getur haldið áfram að trufla Sturlu í viðtalsþáttum (sbr Skipulagsvaktina í sjónvarpinu um daginn) og miðborgarbúar þurfa enn að tala með hléum. Enn þarf að flytja flugvélabensín um þéttasta hluta borgarinnar. Fasteignaverð í Vatnsmýri verður lægra en ella enda lóðir við flugvelli aldrei vinsælar. Hættan af hrapandi vélum í miðborginni er sú sama og síðast en ekki síst verða enn hæðatakmarkanir á byggð kringum flugvöllinn sem stendur í vegi fyrir stórhuga framkvæmdum.
Byggjum heila bygð í Vatnsmýri en ekki klofning.
Yfirlýsing um samgöngumiðstöðina

Höfuðborgarsamtökin hafa sent frá sér yfirlýsingu varðandi fyrirhugaða samgöngumiðstöð Samgönguráðherra í Vatnsmýrinni. Lesið yfirlýsinguna hér.

7.2.05

Skynsemisfólk vill völlinn burt

Æ fleiri leggja málefni Samtaka um betri byggð þess efnis að flugvöllurinn skuli burt, allur burt, lið. Á Deiglunni ritar Þórður Heiðar Þórarinsson grein þar sem hann gerir grein fyrir þeirri sjálfsögðu skoðun sinni að flugvöllur í Vatnsmýri skuli burt og ekki bara að hluta heldur í heild sinni. Greinina má lesa hér.

5.2.05

Þórður Ben og málþing

Málþing um borgina sem minnisvarða menningar verður haldið í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi á morgun sunnudag. Tilefnið er að sjálfsögðu sýning Þórðar Ben í safninu sem enginn borgaráhugamaður ætti að láta fram hjá sér fara.
Nánari upplýsingar hér.

4.2.05

Vefur Austurhafnar

Austurhöfn er fyrirtæki stofnað um að reisa ráðstefnu og tónleikahús í austurhöfninni. Vefurinn er hér.

Leslisti fyrir framþróun Reykjavíkur

Við höfum tekið saman nokkrar bækur sem Skipulagsyfirvöld og aðrir sem hafa áhuga ættu að kynna sér vilji þeir breyta skipulagi Reykjavíkur til betri vegar.

Fyrst ber að nefna

Suburban Nation: The Rise of Sprawl and the Decline of the American Dream
sem ætti að eiga fullt erindi við Íslendinga enda draumarnir amerísku og íslensku náskyldir. Farið er í lífsmunstrin sem myndast við bílasamfélagið og hvernig það vinnur í raun gegn hugmyndum um frelsið sem draumurinn lofar.

Næst ber að nefna
Sustainability and Cities: Overcoming Automobile Dependence
Hollráð fyrir hina bíleskandi þjóð.

The New Transit Town : Best Practices in Transit-Oriented Development
Framtíðarsýn um hvernig nýta megi almenningssamgöngur sem grunneiningu í skipulagi.


3.2.05

Litríka borg


16--rvk_colours
Originally uploaded by 1541.
Borgin er litrík, skemmtilega sjálfsprottin og fallegur staður.