Betri byggð

11.10.05

Barist gegn heilsuleysi og umhverfisvandamálum

Maður spyr sig hvað maður geti gert til að minnka líkurnar á hjartaáfalli. Nú þegar hjartasjúkdómar eru með algengustu banvænum sjúkdómum eru margir sem ættu að huga að áhættuþáttum í sínum lífsstíl. Það kemur okkur ekki á óvart en þéttleiki íbúðasvæðis og aðstæður til að ganga til erinda sina er einn þeirra þátta sem segir til um líkur á hjartasjúkdómum. Þeir sem búa í slíkum borgarhverfum með miklum þéttleika sem ber nærþjónustu í göngufjarlægð fá sína hreyfingu af að sinna daglegum erindum og minnka þar með líkur á hjartasjúkdómum. Það sem meira er er að íbúar í þéttum borgarhverfum menga minna en hinir, sveit í borg er nefnilega ekki svo náttúruvæn.
Grein um þetta efni er að finna á treehugger.com

19.7.05

Sérð þú þéttleikann?

Lincoln land institute hefur sett upp sniðuga vefsíðu þar sem hægt er
að kanna skynjun sína á þéttleika borga. Þéttleiki er eins og allir ættu að vita sú stærð sem mest áhrif hefur á hagkvæmni og notaleika þess að búa í borg. En þéttleika má framkvæma í mörgum mismunandi og misgóðum formum og útfærslan skiptir miklu máli.
Sjón er sögu ríkari, kíkið á síðuna

9.5.05

Fregnir af aðalfundi Landverndar

Samtök um betri byggð gengu formlega í Landvernd á aðalfundi sem haldinn
var laugardaginn 23. apríl 2005 á Hótel Hellissandur, Snæfellsnesi.
Fulltrúi samtakanna var Dóra Pálsdóttir. Hún kynnti helstu stefnumál
samtakanna og bar fram ályktun okkar. Ályktuninni var vísað til nýkjörinnar
stjórnar Landverndar til frekari umfjöllunar.

Samtök um betri byggð eiga mikla samleið með Landvernd þar sem við berjumst
fyrir góðri nýtingu á verðmætu landi, minni mengun og betra mannlífi.

Tillaga Samtaka um betri byggð um nýjan kafla í stefnu Landverndar varðandi höfuðborgarsvæðið.

Landvernd skorar á borgarstjórn Reykjavíkur og aðrar sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu að láta gera nýtt aðalskipulag fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2006, sem innihaldi róttæka þéttingu byggðar á 20 ára skipulagstímabili. Varðandi Reykjavík blasir það við sem lang besti valkostur að fjarlægja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni svo fljótt sem það er tæknilega gerlegt og byggja þar í staðinn þétta og blandaða byggð. Á sama tíma haldi borgaryfirvöld að sér höndum varðandi frekari útþenslu Reykjavíkur austur fyrir Elliðaár.

Greinargerð

Þétting byggðar er yfirlýst meginmarkmið núgildandi aðalskipulags Reykjavíkur. Því miður er það markmið ekki í samræmi við sjálft inntak og forsendur skipulagsins, sem að óbreyttu mun þvert á móti leiða til þess að íbúum á hvern hektara lands á höfuðborgarsvæðinu fækkar úr 16 árið 2001 í 14 árið 2024. Þetta veldur því að eknum kílómetrum fjölgar um 15% á hvern íbúa á skipulagstímabilinu, eins og segir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.

Þétting byggðar í eða við miðborgir er mjög umhverfisvæn aðgerð, sem dregur úr þörf fyrir akstur einkabíla. Orkunotkun og mengun minnka, slysum fækkar í umferðinni, miklir fjármunir sparast og dregið er úr heilsuspillandi neysluvenjum bílasamfélagsins. Grundvöllur skapast á ný fyrir góða þjónustu almenningsvagna og fleiri eiga þess kost að sinna erindum gangandi eða á reiðhjóli. Þannig er stuðlað að aukinni hreyfingu og heilbrigðari og menningarlegri lífsháttum borgarbúa.

27.4.05

Fundur um skipulag Vatnsmýrar

Skipulagsyfirvöld eru að hleypa af stokkunum áætlun um skipulag Vatnsmýrarinnar og efna af því tilefni til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur á morgun, fimmtudag kl. 17. Nánar um fundinn hér. Í sumar og fram á haust verður unnið að undirbúningi heilmikillar sýningar og umræðuþings um framtíð borgarinnar í Vatnsmýri sem sett verður upp í haust. Greinilegt er að umræðan er komin á töluverðan rekspöl í kerfinu og gaman verður að sjá útkomu þessa fundar.

20.4.05

Tvær samhljóða úr ólíkum áttum og fundur

Þétting byggðar og almennt betri byggð er mál sem fer þvert á flokkslínur en fer meira eftir aldri ef marka má stikkprufur úr umræðunni. S.l. mánudagskvöld stóðu Sjálfstæðisfélögin í Reykjavík fyrir um margt ágætum fundi um framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni. Þar tókust Egill Helgason blaðamaður og Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair á um flugvöllinn í Vatnsmýri. Raunar kom það í ljós að Jón Karl var alls ekkert á því að flugvöllur þyrfti að vera í Vatnsmýrinni ef önnur ásættanleg lausn væri fundin sem hún og verður án efa.
Kristján Möller talsmaður Héðinsfjarðarganga og fulltrúi embættismannalýðsins sem notar flugvöllinn hvað mest en borgar ekki sjálfur stóð upp og tjáði sig um málið. Hann hlaut þó mikinn háðshlátur þegar Egill spurði hann hversu mikið borgarbúar ættu að blæða fyrir að koma Kristjáni inn á Þing. Þá var tekið eftir því að Kristján hló dátt og gerði dár að þegar sparnaður í lengd lagnakerfa var nefnt sem dæmi um þann sparnað sem hlýst af þéttingu byggðar. Enda ekki við öðru að búast af manni sem ber ekki skynbragð á raunhæfan kostnað í almannaþjónustu.
Allnokkrir settlegir kallar komnir yfir miðjan aldur fussuðu og sveiuðu yfir þeim nýstárlegu hugmyndum að byggja alvöru borgarbyggð í Vatnsmýri enda sennilega sáttir við sitt hlutskipti búandi í einbýlishúsum í Skerjafirði. Hinir yngri sem sjá kost sinn þrengri og baráttuna harða framundan vilja að sjálfsögðu breyta samfélaginu til betri áttar fyrir sína framtíðarhagsmuni. Dæmi um þetta má sjá á skrifum tveggja úr yngri deildinni. Fyrst ber að nefna grein eftir Höskuld Marselíusarson á ihald.is. Hin er svo grein eftir Heiðu Björg Pálmadóttur sem skrifar grein á politik.is.
Myndir af fundinum má sjá hér.

4.4.05

Kynning hjá UJR

Næstkomandi fimmtudagskvöld mun Betri byggð kynna málefni sín fyrir Ungum jafnaðarmönnum í Reykkjavík eins og kynnt er á síðu þeirra, politik.is. Farið verður yfir grundvallaratriði í skipulagsmálum og áhrif þessara þátta á byggð Höfuðborgarsvæðisins.

1.4.05

Offita og skipulag

Eins og áður hefur verið bent á eru sterk tengsl milli heilbrigðis og skipulags. Bílasamfélagið er að fita heilu þjóðirnar með hræðilegum afleiðingum fyrir heilsu fólks og álagi á heilbrigðiskerfið.
Active living by design eru samtök í BNA sem berjast fyrir betra skipulagi í þágu heilsunnar. Heimasíða samtakanna er fróðleg fyrir þá sem vilja kynna sér þessi mál betur.

Sjálfstæðismenn fá kynningu og tjá sig

Samtökin eru þessa daganna að kynna málefni sín og sjónarmið fyrir ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna og tóku Heimdellingar á móti okkur í gærkvöldi. Umræður voru líflegar og að sjálfsögðu var mörgum hugmyndum Betri byggðar tekið vel.
Heiðar Lár Halldórsson skrifar svo grein á frelsi.is þar sem hann spyr þarfra spurninga um veru flugvallar í Vatnsmýri.

Vandinn er bara sá að þær lóðir eru staðsettar víðsfjarri borginni sjálfri, eins og önnur úthverfi Reykjavíkur sem myndast hafa undanfarin ár. Úr þeim er styttra til Bláfjalla en niður á Bæjarins Bestu. Á sama tíma búa borgarbúar við flugrekstur í hjarta Reykjavíkur með tilheyrandi hljóðmengun og öðrum óþægindum.

Á svæði flugvallarins er pláss fyrir 20.000 manna íbúðabyggð sem vafalaust myndi þétta byggð og auka borgarabrag Reykjavíkur.

Greinina má lesa í heild sinni hér.